Hleð......

ORLOFSUPPBÓT GREIDD ÞÓ SAMNINGAR SÉU LAUSIR.

 

Orlofsuppbót er hluti af öllum kjarasamningum aðildarfélaga BSRB og greiðist annað hvort 1. maí eða 1. júní. Orlofsuppbótin er föst krónutala, á hana bætist ekki orlof, og samið er um hana fyrir hvert og eitt ár þegar kjarasamningar eru gerðir. Hjá ríkinu og Reykjavíkurborg er uppbótin greidd 1. júní en hjá öðrum sveitarfélögum er hún greidd 1. maí.

Þar sem kjarasamningar eru lausir núna liggur ekki fyrir hver upphæð orlofsuppbótar fyrir árið 2019 verður. Það þýðir þó ekki að greiðsla orlofsuppbótar frestist þar til samið verður. Eðlilegt er að starfsmenn fái greidda orlofsuppbót síðasta árs á þeim tímapunkti sem kjarasamningur greinir og fái svo leiðréttingu ef samið verður um hærri orlofsuppbót í komandi kjarasamningum. Á árinu 2018 var orlofsuppbótin 48.000 krónur í flestum samningum aðildarfélaga BSRB.

Um orlofsuppbót gilda almennt þær reglur að einstaklingar sem hafa verið í fullu starfi allt orlofsárið, frá 1. maí til 30. apríl, fá fulla uppbót. Það sama gildir um einstaklinga sem hafa verið í fæðingarorlofi eða launalaust frá störfum vegna veikinda í allt að sex mánuði. Starfsmenn í hlutastarfi fá greidda uppbót eftir starfshlutfalli og þeir starfsmenn sem hafa unnið hluta úr ári sömuleiðis, ef þeir hafa unnið að minnsta kosti 3 mánuði á orlofsárinu.

 

Stytting vinnuvikunnar

Eitt af stærstu baráttumálum BSRB er að gera íslenskt samfélag fjölskylduvænna. Hluti af því viðamikla verkefni er að stytta vinnuvikuna, án þess að laun skerðist á móti. Íslendingar vinna mun lengri vinnudag en þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við og geta því ekki notið samveru með fjölskyldu og vinum eins mikið og til dæmis aðrar Norðurlandaþjóðir.

Stefna BSRB er að lögfesta þurfi styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir í dagvinnu og að vinnuvika vaktavinnufólks verði 80% af vinnutíma dagvinnufólks án launaskerðingar. Rannsóknir sýna að styttri vinnuvika leiðir til aukinnar ánægju í starfi og aukinna afkasta. Þá mun heilsa og vellíðan landsmanna batna með styttri vinnudegi og jafnrétti kynjanna aukast.

Til að vinna að framgöngu þessa baráttumáls hefur bandalagið meðal annars beitt sér fyrir því að stofnað verði til tilraunaverkefna svo hægt sé að meta árangurinn af slíkri styttingu hér á landi. Tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar hefur staðið frá árinu 2015 en tilraunaverkefni BSRB og ríkisins hófst í byrjun apríl 2017.

Sjá nánar hér

Sumarorlof 2019

 

Ágætu félagsmenn

Nú fer að styttast í umsóknartímabilið fyrir sumarorlofið það hefst 6. apríl og stendur til 13. apríl, en þá verður úthlutað úr umsóknum.

24. apríl verður svo opnað fyrir "fyrstur kemur fyrstur fær" tímabilið og þá geta félagsmenn pantað beint það sem laust verður eftir úthlutun sumartímabilsins. 

Sumarorlofstímabilið er frá 24. maí til 13. september.

Allar upplýsingar um það sem er í boði er í orlofsblaðinu okkar sem fer í póst í næstu viku. 

Við minnum líka á að hægt er að sækja um orlofshúsið okkar Mosfell, í Torrevieja á Spáni, bara fara inn á orlofsvefinn og ganga frá leigunni, enn eru laus tímabil þar.

 

F.h. orlofsnefndar Samflots

Guðbjörn Arngrímsson

formaður

 

 

 

 

Viðhorfskönnun meðal félagsmanna aðildarfélaga Samflots

Ágætu félagar í aðildarfélögum Samflots.
 
Ég vil að minna ykkur enn og aftur á viðhorfskönnunina okkar meðal Samflots félagana. Þið eigið öll að vera búin að fá hana senda í tölvupósti og ef það er ekki tilfellið, hafið þá endilega samband við mig og við greiðum úr því.
 
Það er mikilvægt að vera með og hjálpast að, til að koma okkar sjónarmiðum og væntingum á framfæri.
 
kv.
 
Guðbjörn Arngrímsson
formaður Samflots
S: 899-6213
 
 

Skattatillögur ganga ekki nægilega langt

 

Formannaráð BSRB telur skattatillögur stjórnvalda vonbrigði enda sé ekki gengið nægilega langt í átt að jöfnuði og réttlæti í þeim.

Formannaráð BSRB telur að tillögur stjórnvalda að breytingum á skattkerfinu, sem kynntar voru í gær, gangi ekki nægilega langt í átt að jöfnuði og réttlæti í samfélaginu. Þetta kemur fram í ályktun ráðsins sem samþykkt var í morgun.

Í ályktuninni er það ítrekað sú stefna bandalagsins að fjölga eigi skattþrepum, eins og ráðgert er samkvæmt tillögunum, en harmað hversu litlar lækkanirnar eru fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar og hversu seint þær eiga að koma til framkvæmda.

„Tillögur ríkisstjórnarinnar fela í sér að á næstu þremur árum verði skattbyrði einstaklinga lækkuð sem nemur alls 6.760 krónum mánaðarlega. Breytingarnar eiga að koma í þremur áföngum og á sá fyrsti ekki að koma til framkvæmda fyrr en í byrjun árs 2020 þegar skattbyrðin á að lækka um 2.253 krónur. Það veldur vonbrigðum hve lítil lækkunin er og enn meiri vonbrigðum hversu seint hún á að koma til framkvæmda,“ segir meðal annars í ályktun formannaráðsins.

Sjá nánar hér

 

Viðhorfskönnun meðal félagsmanna aðildarfélaga Samflots

 Ágæti félagsmaður.

Aðildarfélög Samflots, FOSA, Fos-Vest., SDS, St. Fjallabyggð, St. Fjarðabyggð, STAVEY og St. Húsavíkur, leita nú til félagsmanna sinna með vandaða viðhorfskönnun um kröfur og önnur helstu atriði í komandi kjarasamningum.

Félögin eru að vinna að kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga við sveitarfélög og ríki og mun þitt svar hafa áhrif á þá vinnu.

Einnig er spurt um annað, s.s. líðan í starfi, um starfsumhverfi og launakjör, um afstöðu til stéttarfélags og um sameiningu stéttarfélaga ásamt öðru. Það er fyrirtækið Zenter-rannsóknir sem sér um þessa könnun fyrir okkur og vinnslu úr henni og þátttaka tekur um 7 til 9 mínútur.

Formannaráð Samflots hvetur félagsmenn aðildarfélaganna til að taka þátt í þessari könnun sem verður send innan fárra daga á netfang félagsmanna og hægt er að svara á netinu.

Eftir að könnun lýkur verða dregin út nöfn þriggja svarenda sem fá hver um sig 20 þúsund króna gjafabréf.

Ef einhver les þetta og telur sig vera félagsmann í einhverju aðildarfélagi Samflots og hefur ekki fengið könnun senda, þá er sá hinn sami hvattur til að hafa samband við formann þess félag eða formann Samflots.

 

Með von um góða þátttöku félagsmanna

Guðbjörn Arngrímsson

formaður Samflots

S: 899-6213

 

Forvarnir það eina sem dugir gegn kulnun.

 

Nýjar rannsóknir á bata þeirra sem greinst hafa með kulnun sýna að erfitt getur reynst að ná fullum bata og því gríðarlega mikilvægt að huga að forvörnum áður en í óefni er komið. Þetta kom fram í erindi Ingibjargar Jónsdóttur, forstöðumaður Institute of Stress Medicine í Svíþjóð og prófessor við Gautaborgarháskóla, á málþingi BSRB um kulnun og álag í starfi í morgun.

Málþing BSRB um kulnun og álag í starfi var haldið á Reykjavík Natura hótelinu og var afar vel sótt. Um 250 manns komu á málþingið og fræddust um hvernig hægt sé að bregðast við kulnun og öðrum afleiðingum álags í starfi.

 Sjá nánar hér

 

Álag í almannaþjónustu hefur afleiðingar.

Pistill frá Sonju Ýr Þorbergsdóttur formanni BSRB

Hversu hratt eigum við að hlaupa í vinnunni? Þetta er ein algengasta spurningin sem ég fæ frá félagsmönnum aðildarfélaga BSRB. Það er áhyggjuefni hvernig álagið á starfsmenn sem sinna opinberri þjónustu hefur aukist verulega á undanförnum árum þrátt fyrri uppsveiflu í efnahagslífinu.

Við sjáum það hvert sem litið er að starfsemi hins opinbera er rekin á lágmarksmönnun. Okkar félagsmenn eru stoltir af því að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem heyra undir almannaþjónustuna. Þeir hafa lagt mikið á sig við að veita góða þjónustu þrátt fyrir mikið álag en það er ljóst að eitthvað þarf undan að láta.

Afleiðingarnar af undirmönnun og álagi blasa við okkur. Tölur frá styrktarsjóðum aðildarfélaga BSRB sýna að heilsu félagsmanna hrakar. Tveir af hverjum þremur starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga eru konur og er það sama hlutfall kvenna sem leitar til VIRK vegna streitu og álags sem leiðir til kulnunar, geðsjúkdóma og stoðkerfisvandamála.

Sjá nánar hér

Styttri vinnutími eða sveigjanlegri?

Þegar rætt er um styttingu vinnuvikunnar er hugmyndum um sveigjanlegan vinnutíma gjarnan stillt upp sem einhverskonar andsvari. Með því er litið fram hjá því að stytting vinnuvikunnar hefur það meðal annars að markmiði að búa til skýran ramma um sveigjanleika vinnutímans.

Eitt af meginmarkmiðunum með kröfunni um styttingu vinnuvikunnar er að minnka streitu og gera starfsfólki kleift að samþætta betur vinnu og einkalíf. Rannsóknir sýna fram á að eftir því sem fólki gengur betur að samþætta fjölskyldulífið og vinnuna því sáttara er það við líf sitt. Það hefur því bein jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu.

Sjá nánar hér

Drögum úr ójöfnuði

 

Krafa launafólks um að allir geti lifað af á launum sínum hefur verið áberandi í umræðunni og verður í forgrunni þegar kjarasamningar þorra aðildarfélaga BSRB losna í lok mars. Sú krafa beinist ekki síður að stjórnvöldum en launagreiðendum enda til lítils að hækka laun þeirra lægst launuð ef kjarabæturnar eru hirtar aftur af fólki í gegnum skattkerfið.

Í viðræðum BSRB við stjórnvöld leggjum við höfuðáherslu á breytingar á skattkerfinu, úrbætur á húsnæðismarkaði, styttingu vinnuvikunnar, jöfnun launa milli almenna og opinbera markaðarins og launaþróunartryggingu.

 

Sjá nánar hér

Upp