Sérstök eingreiðsla 1. febrúar 2019

Í síðasta kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, var samið um sérstaka eingreiðslu, kr. 42.500, sem greiðist þann 1. febrúar 2019 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf, sem er við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember.

Á sama hátt var í samningi við Ríkið samið um sérstaka eingreiðslu, 55.000 kr., sem greiðist hverjum starfsmanni miðað við fullt starf og sem er við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember.

 

 

 

Metfjöldi umsókna hjá Virk á síðasta ári.

 

Alls sóttu 1.961 einstaklingar um starfsendurhæfingu hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði á síðasta ári og hefur fjöldinn aldrei verið meiri. Þá luku 1.367 starfsendurhæfingu hjá VIRK á árinu, sem einnig er metfjöldi.

VIRK starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður af aðilum vinnumarkaðarins árið 2009 til að bregðast við þeim þrengingum sem samfélagið gekk í gegnum í kjölfar bankahrunsins. Markmiðið var að auka framboð af sérhæfðri starfsendurhæfingu.

Aukin ásókn í þjónustuna er áhyggjuefni, segir Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, í samtali við RÚV. „Við höfum áhyggjur af þessari aukningu. Þetta hefur haldið áfram núna og við áttum ekki von á því. Það sem við höfum mestar áhyggjur af er aukinn fjöldi ungs fólks sem leitar til okkar. En svo getur verið önnur skýring. Hún er sú að fólk er orðið meira meðvitað um okkar þjónustu og fagaðilar vísa til okkar í meira mæli en áður,“ segir Vigdís.

Á árunum 2010 til 2017 leituðu alls 12.197 til VIRK, þar af 1.600 félagar í aðildarfélögum BSRB, eða um 13 prósent. Þetta kemur fram í samantekt sem VIRK vann fyrir bandalagið. Af þeim félögum BSRB sem leituðu til VIRK voru 83 prósent konur og 17 prósent karlar. Hafa verður í huga að tveir af hverjum þremur félagsmönnum í aðildarfélögum bandalagsins eru konur.

Sjá meira hér.

Ár styttri vinnuviku, 2019

 

Á ári þar sem miklar og hraðar breytingar hafa orðið á verkalýðshreyfingunni og nýtt fólk tekið við víða hefur eitt staðið upp úr. Það er sú breiða samstaða sem náðst hefur hjá verkalýðshreyfingunni og hjá launafólki almennt um eitt af þeim stóru málum sem við hjá BSRB höfum barist fyrir árum saman.

Þegar BSRB fór fram með kröfur um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar skömmu eftir aldarmót var lítið hlustað. Síðan þá hafa ýmis augu opnast. Við höfum séð afleiðingarnar af miklu álagi í vinnunni. Við höfum séð hvernig langur vinnudagur bitnar á samskiptum við fjölskyldu og vini, starfsánægju og heilsu launafólks. Í dag er krafan um styttingu vinnuvikunnar orðin ein helsta krafa launafólks og flestir sem kynna sér málið átta sig á mikilvægi hennar.

Sjá meira hér

 

 

Jólakveðja 2018

 

Kæri félagsmaður í aðildarfélagi Samflots.

Stjórnir aðildafélaga Samflots senda þér og fjölskyldu þinni, sem og landsmönnum öllum, bestu jóla og nýárskveðjur með von um að árið 2019 verði okkur öllum gjöfult og gott.

Bestu jólakveðjur

f.h. formannaráðs Samflots

Guðbjörn Arngrímsson

formaður.

 

 

Baráttan um heilbrigðiskerfið

 

BSRB leggur mikla áherslu á að heilbrigðiskerfið sé rekið af hinu opinbera á réttlátan hátt fyrir skattfé landsmanna. Rannsóknir sýna að þar talar bandalagið fyrir hönd þorra þjóðarinnar. Þrátt fyrir það er vaxandi þrýstingur á stjórnvöld að auka einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.

Heilbrigðiskerfið hefur verið rekið á félagslegum grunni frá síðari hluta 20. aldarinnar. Almenn sátt hefur ríkt um það meðal almennings og stjórnmálamanna að kerfið sé fyrst og fremst fjármagnað með skattfé almennings og álögum á sjúklinga sé stillt í hóf. Í því felst líka að ríkið stýrir rekstri helstu eininga, til dæmis sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Íslenska kerfið er því að mörgu leyti svipað þeim kerfum sem byggð hafa verið upp á Norðurlöndunum og í Bretlandi, þó áherslumunur sé á milli landa.

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, er sérfróður um íslenska heilbrigðiskerfið og hefur starfað mikið með BSRB í gegnum tíðina.

Sjá meira hér

 

Álag í almannaþjónustu hefur afleiðingar.

 

Hversu hratt eigum við að hlaupa í vinnunni? Þetta er ein algengasta spurningin sem ég fæ frá félagsmönnum aðildarfélaga BSRB. Það er áhyggjuefni hvernig álagið á starfsmenn sem sinna opinberri þjónustu hefur aukist verulega á undanförnum árum þrátt fyrri uppsveiflu í efnahagslífinu.

Við sjáum það hvert sem litið er að starfsemi hins opinbera er rekin á lágmarksmönnun. Okkar félagsmenn eru stoltir af því að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem heyra undir almannaþjónustuna. Þeir hafa lagt mikið á sig við að veita góða þjónustu þrátt fyrir mikið álag en það er ljóst að eitthvað þarf undan að láta.

Afleiðingarnar af undirmönnun og álagi blasa við okkur. Tölur frá styrktarsjóðum aðildarfélaga BSRB sýna að heilsu félagsmanna hrakar. Tveir af hverjum þremur starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga eru konur og er það sama hlutfall kvenna sem leitar til VIRK vegna streitu og álags sem leiðir til kulnunar, geðsjúkdóma og stoðkerfisvandamála.

Rannsóknir sýna að starfsfólk í velferðarþjónustu upplifir verri líkamlega og andlega heilsu og minni starfsánægju samanborið við aðrar starfsstéttir. Ítrekað hefur verið bent á að ein besta leiðin til að fyrirbyggja þetta er að vinna gegn streituvöldum á vinnustað, bæta aðstæður stjórnenda og vinnuumhverfis í heild.

Í nýrri ársskýrslu Vinnueftirlitsins kemur fram að slysin séu flest í opinberri þjónustu og þar er lögreglan sérstaklega nefnd. Hér verður að bregðast við og tryggja að opinberir aðilar fylgi lögum og reglum um vinnuvernd.

Almannaþjónustan gegnir lykilhlutverki í uppbyggingu samfélagsins. Þetta eru störfin í heilbrigðisþjónustunni, félagsþjónustunni, menntun, löggæslu og víðar. Það má ekki veita neinn afslátt af mönnun, sér í lagi þegar skortur á starfsfólki hefur svo alvarlegar afleiðingar. Tryggja verður gott starfsumhverfi og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða vegna aukinnar slysa- og veikindafjarveru. Þetta er samfélagslegt verkefni og á því bera opinberir atvinnurekendur og stjórnvöld ábyrgð.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

 

Opnað fyrir umsóknir á Spáni 2019

Ágæti félagsmaður.

Nú höfum við opnað við fyrir umsóknir um leigu á orlofshúsinu okkar, Mosfelli á Spáni, sem við höfum verið með aðgang að s.l. ár við góðar undirtektir. 
Húsið er á Torrevieja rétt hjá Alicante. Við bjóðum upp á tveggja vikna leigutímabil yfir sumartíma, en utan þeirra er hægt að panta sér eina viku í senn. 
Félagmenn eru beðnir að skoða það vel að skiptidagar eru þriðjudagar og á tímabilinu frá 30. apríl - 21. maí er hægt að panta eina eða tvær viku.
Síðan byrja sumartímabilin og eru þau sem hér segir: 21. maí - 4. júní, 4. - 18. júní, 18. júní - 2. júlí, 2. - 16. júlí, 16. - 30. júlí, 13. - 27. ágúst, 27. ágúst - 10. sept., 10. - 24. sept., 24. sept. - 8. okt. Eftir 8. okt. til með 3. des. er hægt að panta sér vikudvöl ef félagsmenn kæra sig um.

Flest flugfélög og ferðaskrifstofur eru með flug til Alicante á þriðjudögum og flest starfsmannafélög eru með skiptidag á þessum vikudegi. 

Til að fá nánari upplýsingar um húsið og umhverfið þess, fari á inn á slóðina; tilspanar.is og þar má finna er allt sem vita þarf um íbúðina.

Við höfum líka opnað fyrir umsóknir í öðrum bústöðum og íbúðum til 12. apríl. 

Við höfum sent bréf í tölvupósti til allra sem við erum með netföng hjá en það eru því miður ekki allir. Því biðjum við þá sem ekki hafa fengið tölvupóst frá okkur en sjá þetta á heimasíðunni, að fara inn á orlofssvæði sitt og skrá þar netfangið sitt eða koma því til okkar með því að senda tölvupóst á gudbjorn@fjallaskolar.is og komast þannig í samband við okkur. Eins biðjum við þá sem eru með netfang hjá okkur að láta vinnufélaga sína vita af þessum pósti.


Með bestu kveðjum,


Guðbjörn Arngrímsson 
formaður orlofsnefndar Samflots




 

 

Persónuuppbót/desemberuppbót 2018

 

Fyrir bæjarstarfsmenn:  Á árinu 2018 kr.  113.000

Desemberuppbót er greidd 1. desember ár hvert Með fullu starfi er átt við 100% starf tímabilið 1. janúar til 30. nóvember sama ár. Hafi starfsmaður gegnt hlutastarfi eða starfað hluta úr ári, skal h ann fá greitt miðað við starfshlutfall og/eða starfstíma, þó þannig að hann hafi starfað samfellt a.m.k. frá 1. september það ár. Starfsmaður sem lætur af störfum á árinu, en hafði þá starfað samfellt í a.m.k. 6 mánuði skal einnig fá greidda persónuuppbót miðað við starfstíma og starfshlutfall á árinu. Hlutfall skv. þessari málsgrein er reiknað sem hlutfall af fullri vinnu (100%) í 12 mánuði á almanaksárinu af síðast gildandi persónuuppbót 


Fyrir ríkisstarfsmenn:  Á árinu 2018 kr. 89.000

Starfsmaður sem er við störf í fyrstu viku nóvembermánaðar skal fá greidda persónuuppbót 1. desember ár hvert miðað við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Persónuuppbót er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamningsins. Á uppbótina reiknast ekki orlofsfé. Hafi starfsmaðurinn gegnt hlutastarfi eða unnið hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall á framangreindu tímabili. 

Á sama hátt skal einnig starfsmaður sem látið hefur af starfi en starfað hefur samfellt í a.m.k. 3 mánuði (13 vikur) á árinu, fá greidda uppbót í desember, miðað við starfstíma og starfshlutfall. Sama gildir þótt starfsmaður sé frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur eða í allt að 6 mánuði vegna fæðingarorlofs.

ORLOFSPAKKINN

Búið að opna fyrir útleigu í desember og jól og áramót. 

Um jól og áramót eru tvær vikur í boði í íbúðunum í Reykjavík þ.e. frá 21. til 28. des. fyrri vikan og svo frá 28. des. til 4. jan. seinni vikan. Þessar tvær vikur eru á vikuleigu en aðra daga í desember gildir helgarleiga.

Í bústöðunum er helgarleiga í boði allan desembermánuð.

Um næstu mánaðarmót verður svo opnað fyrir janúar til og með mars 2019.

Núna á næstu dögum kemur tölvupóstur til félagsmanna aðildarfélaga að orlofspakka Samflots um húsið okkar á Spáni. Við biðjum félaga að skoða þann póst vel því það er hægt að komast til Alicante á Spáni þar sem húsið er fyrir lítinn pening ef pantað er tímanlega.

Bestu kveðjur

 f.h. orlofsnefndar Samflots

Guðbjörn Arngrímsson

Formaður

 

Búið að opna nóvember til umsóknar á orlofsvefnum.

 

Nú er búið að opna fyrir umsóknir á orlofsvefnum til 30 nóvember. 

Vegna þings BSRB dregst opnun fyrir desember, þar með talin jól og áramót til 23. okt.

 

Beðist er velvirðingar á þessari seinkun.

 

Orlofsnefnd Samflots.

Upp