Hleð......

Saga Samflots

Forsaga þess að Samflot bæjarstarfsmanna var stofnað 1987 var að Samband íslenskra sveitarfélaga setti á stofn Launanefnd í ársbyrjun 1982 sem fékk það verkefni að gera kjarasamninga fyrir þau sveitarfélög sem vísuðu umboði til samninga um kaup og kjör til hennar.

Eftir sveitastjórnarkosningar 1986 var Launanefndin komin með umboð til samninga við 21 af 23 bæjarstarfsmannafélögum í landinu.

Árið 1986 höfðu forustufólk bæjarstarfsmannafélaganna fengið reynslu af því að fá Launanefndina sameinaða til viðræðna um kaup og kjör félagsmanna en fulltrúar bæjarstarfsmanna voru þá ekki í samstarfi og áttu því erfiðara með að átta sig á samanburði og sérhæfingu sem Launanefndin hafði kost á.       

Þess vegna var það að í byrjun árs 1987 að tekin var ákvörðun um að stofna Samflotið vegna kjarasamninga sem þá voru gerðir.

Þeir samningar voru að mörgu leyti tímamótasamningar, þá var í fyrsta skipti í mörg ár samið til langs tíma eða til þriggja ára, þá kom líka inn fæðingarorlof fyrir feður sem var nýmæli á þeim tíma.

Í dag fer Launanefnd Sveitarfélaga með samningsumboð við öll bæjarstarfsmanna-félög á landinu.

Samninganefnd ríkisins varð viðsemjandi Samflots við verkaskiptingu ríkis og sveitarfálaga um áramótin 2000/2001 þegar starfsmenn sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og framhaldsskóla urðu ríkisstarfsmenn.

Samflotið klofnaði í árið 2000 í tvær blokkir en síðan þá hafa margar útgáfur af Samfloti litið dagsins ljós. Flest hafa félögin innan Samflots verið 21 en fæst verið 5. Í dag eru Samflotsfélögin 7.

Þó fækkað hafi í Samflotsfjölskyldunni eru flestir forsvarsmenn bæjarstarfsmannafélaganna þeirrar skoðunar að samstarf um gerð kjarasamninga sé líklegast til að skila árangri fyrir félagsmenn, hvort sem það er í samvinnu eða við sameiningu félaga, þess vegna fóru öll félögin saman gegn viðsemjendum okkar í tveimur síðustu kjarasamningum.

Hlutverk Samflotsins í dag er að vinna að gerð kjarasamninga og framkvæmd þeirra við Samninganefnd íslenskra sveitarfélaga (SNS) og Samninganefnd ríkisins (SNR). Samflotsfélög sem undirrita sameiginlegan kjarasamning samþykkja að fylgja honum eftir sameiginlega út samningstímabilið. Hvert Samflotsfélag tekur þá ákvörðun um áframhald samstarfs innan Samflots. Ákvörðun um slit á Samfloti er eingöngu tekin á aðalfundi Samflots.

Grundvallarhugsun Samflots er sú að hvert félag hefur sjálfstæðan samningsrétt og atkvæðagreiðsla um kjarasamninga fara fram í hverju félagi fyrir sig nema ákvörðun sé tekin um annað fyrirkomulag eins og t.d. sameiginlega atkvæðagreiðslu.

Framkvæmd kjarasamninga er orðinn stór hluti af vinnu stéttarfélaganna og fer hún fram í samstarfsnefndum milli Samflots og viðsemjenda. Mörg mikilvæg mál eru unnin þar og um þau samið, nægir þar að nefna vinnu við nýtt starfsmatskerfi og framkvæmd ýmissa bókana.

En það er líka annað hlutverk sem Samflotið gegnir. Samflotið kemur fram fyrir aðildarfélög sín í réttinda– og fræðslumálum og öðrum þeim málum sem félögin telja hagkvæmara að vinna saman.

Í dag er kominn vísir að samvinnu í orlofsmálum og er gott samstarf hjá 4 félögum um sameiningu um orlofspakka. Það samstarf hefur gengið mjög vel og er greinilegt að félagsmönnum þeirra Samflotsfélaga sem í þessu samstarfi, eru líka þetta vel, fjölbreytnin er mikil og miklu meiri en félögin gæru gert með góðu móti ein.

Við erum líka með sameiginlegan fund stjórna og trúnaðarmanna aðildarfélaga þar sem skipts var á skoðunum, málin rædd og farið yfir kjarasamninga.

Það má hugsa sér að það verði ekki mikið mál að auka það samstarf til góða fyrir félagsmenn innan Samflotsfélaganna.

Þetta er það helsta um hlutverk Samflotsins í dag en það er félaganna að taka ákvörðun um aukið samstarf. Það er ljóst að samvinna er kostur og því er rétt að skoða alla möguleika, líka þá sem leiða til sameiningar félaga.

Aðildarfélög 1. janúar 2016.

Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi

Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum

Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu

Starfsmannafélag Fjarðabyggðar

Starfsmannafélag Húsavíkur

Starfsmannafélag Fjallabyggðar

Starfsmannafélag Vestmannaeyja 

Upp