Jóla og áramótaopnun
BSRB og Alþýðusamband Íslands hafa ákveðið að setja á fót rannsóknarstofnun í vinnumarkaðsfræðum til að efla rannsóknir á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála. Norræn heildarsamtök á vinnumarkaði starfrækja mörg hver slíkar stofnanir og er því sérstakt ánægjuefni að íslenska verkalýðshreyfingin stígi nú þetta stóra skref.
Tilgangurinn er að bæta þekkingu á lífsskilyrðum launafólks og brúa bilið milli fræðasamfélagsins og verkalýðshreyfingarinnar. Stofnuninni er ætlað að dýpka umræðuna um kaup og kjör og koma þannig með aukið fóður inn í baráttu launafólks fyrir bættri afkomu og betri lífsskilyrðum. Hún verður þverfagleg og sjálfstæð í sínum störfum.
Til að skapa rannsóknarstofnuninni rekstrargrundvöll tryggja ASÍ og BSRB sameiginlega fjármagn og aðstöðu undir reksturinn. Vonir standa til þess að stofnunin hefji starfsemi sem fyrst.
„Félagar okkar á hinum Norðurlöndunum hafa byggt upp sambærilegar rannsóknarstofnanir með góðum árangri sem hefur stuðlað að bættri þekkingu á vinnumarkaðsmálum. Því er fagnaðarefni að þetta verði loks að veruleika hér á landi. Það er brýnt að efla rannsóknir á sviði vinnumarkaðsmála og hér leggjum við grunninn að mikilvægari stofnun,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
„Það er von mín að með nýrri rannsóknarstofnun fáum við betri upplýsingar um stöðu vinnandi fólks og hvernig bæta megi hag almennings. Það skiptir miklu máli að búa til og miðla þekkingu á okkar eigin forsendum,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Aðildarfélög BSRB sem eiga í kjarasamningsviðræðum við Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa vísað viðræðunum til ríkissáttasemjara. Í síðustu viku slitnaði upp úr viðræðum við ríkið og í framhaldinu hófst ferli aðildarfélaganna um vísun deilnanna til ríkissáttasemjara.
„Okkar áherslur hafa legið fyrir í hálft ár eða allt frá því síðustu kjarasamningar runnu út. Kröfurnar eru þær sömu gagnvart ríkinu, Reykjavíkurborg og Sambandinu og því er það eðlilegt skref að ríkissáttasemjari taki við verkstjórninni og þannig sé gætt að samræmi,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Kjarasamningar flestra aðildarfélaga bandalagsins hafa verið lausir frá því í lok mars og hafa fundir staðið yfir frá því um það leyti. „Það er auðvitað miður að vera svo gott sem á sama stað í umræðu um styttingu vinnuvikunnar sex mánuðum síðar en ég er vongóð um að nú komist málin á hreyfingu,“ segir Sonja.
Þá á enn eftir að taka til umræðu jöfnun launa milli markaða, launaþróunartryggingu og launaliðinn. BSRB hefur lagt þunga áherslu á að samið verði um jöfnun launa milli opinbera vinnumarkaðarins og hins almenna, enda er skýrt kveðið á um jöfnun launa milli markaða í samkomulagi sem gert var í tengslum við breytingu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna árið 2016. Í samkomulaginu skuldbundu ríki og sveitarfélög sig til að leiðrétta launamuninn innan tíu ára.
Samningseiningar BSRB funduðu í dag í kjölfar þess að það slitnaði upp úr viðræðum við ríkið í gær. „Fulltrúar aðildarfélaga BSRB eru einhuga um að næsta skref er að vísa deilunni gagnvart ríkinu til ríkissáttasemjara,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Fundurinn í dag var gagnlegur og mikil samstaða ríkti þar. „Viðræðurnar við ríkið hafa ekkert þokast undanfarið og því lítið eftir að gera en að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. Á fundinum kom skýrt fram að fyrirliggjandi tilboð ríkisins er með öllu óásættanlegt. Það er ekki neinn að fara að ganga að þessu tilboði,“ segir Sonja.
Helst er deilt um kröfu BSRB um styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir án kjaraskerðingar, með meiri styttingu fyrir vaktavinnufólk. Í tilboði ríkisins var miðað áfram við 40 stunda vinnuviku en opnað á möguleika á að samið yrði um að stytta vinnuvikuna á einstökum vinnustöðum með því að sleppa kaffitímum og gefa eftir fleiri kjarasamningsbundin réttindi. Þá á enn eftir að taka til umræðu jöfnun launa milli markaða, launaþróunartryggingu og launaliðinn.
„Tilboð ríkisins felur í raun í sér að opinberir starfsmenn eiga að borga fyrir styttinguna og gott betur. Ætlunin er að taka meira af kjarasamningsbundnum réttindum en okkar félagsmenn myndu fá í staðinn og það sjá allir að það gengur einfaldlega ekki upp,“ segir Sonja.
Samkomulag hefur náðst við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg um framhald kjaraviðræðna.
Eins og í samkomulagi sem gert var við ríkið er kveðið á um að launagreiðendur greiði félagsmönnum aðildarfélaga BSRB, 105 þúsund króna innágreiðslu þann 1. ágúst næstkomandi. Ekki hefur ennþá verið gengið frá samskonar samkomulagi við SFV, en verið að vinna að því og lítil ástæða til annars en það gangi eftir fljótlega.
Greiðslan er til komin vegna tafa sem orðið hafa á gerð kjarasamninga. Í nýjum viðræðuáætlunum kemur fram að stefnt sé að því að ljúka nýjum kjarasamningin fyrir 15. september, en samningar flestra aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá byrjun apríl.
Í samningaviðræðum við ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg hefur verið unnið að samkomulagi um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar, launaþróunartryggingu og fleira og leggur bandalagið áherslu á að þessi flóknu mál verði unnin faglega.
Í endurskoðaðri viðræðuáætlun við ríkið kemur fram að þar sem langt sé síðan kjarasamningar hafi runnið út verði greidd innágreiðsla inn á nýja samninga, 105 þúsund krónur. Samskonar ákvæði eru í endurskoðuðum áætlunum vegna samninga við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg sem aðildarfélög BSRB hafa undirritað, eða munu undirrita á næstu dögum.
Þar er einnig kveðið á um friðarskyldu til 15. september og að stutt hlé verði gert á viðræðum á meðan skrifstofa Ríkissáttasemjara er lokuð í sumar, enda hefur reynslan sýnt að lítið hefur gengið í kjaraviðræðum yfir hásumarið.
Vonandi förum við öll glöð inn í sumarið og eigum það gott.
Guðbjörn Arngrímsson
formaður Samflots
Félagsmenn aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríkinu munu fá 105 þúsund króna innágreiðslu 1. ágúst vegna tafa sem orðið hafa á gerð kjarasamninga samkvæmt endurskoðaðri viðræðuáætlun. Viðræður eru í gangið við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg um framhald kjaraviðræðna.
Í endurskoðaðri viðræðuáætlun sem aðildarfélög BSRB og samninganefnd ríkisins hafa gert með sér kemur fram að stefna eigi að því að ljúka gerð nýs kjarasamnings fyrir 15. september, en samningar flestra aðildarfélaga bandalagsins hafa verið lausir frá því í apríl. Í samningaviðræðum sem staðið hafa yfir undanfarið hefur verið unnið að samkomulagi um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar, launaþróunartryggingu og fleira. Bæði BSRB og samninganefnd ríkisins leggja áherslu á að vanda til við þá vinnu.
„Þetta eru flókin mál sem við erum að ræða, sér í lagi útfærslan á styttingu vinnuvikunnar fyrir vaktavinnuhópa. Við viljum gefa okkur góðan tíma í að ræða það enda mikilvægt að ná fram breytingum til að stuðla að bættri heilsu og vellíðan,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sumarfrístíminn er genginn í garð og líklega eru margir félagsmenn BSRB búnir að skipuleggja orlofið sitt. Um orlof er fjallað í orlofslögum og í kjarasamningum, en réttur til orlofs var lengi vel eitt af helstu baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar. Nú er orlof hluti af grundvallarréttindum alls vinnandi fólks enda mikilvægt fyrir heilsu og hamingju að taka frí frá störfum í töluverðan tíma og ná hvíld og endurheimt starfsorku.
Lágmarksorlof fyrir fólk í fullu starfi er 24 dagar en í kjarasamningum er samið um betri réttindi og í flestum tilvikum allt að 30 dögum. Það er misjafnt hvernig aukinn orlofsréttur ávinnst, á almennum vinnumarkaði gerist það með auknum starfsaldri en á opinbera markaðnum hefur það verið með hækkandi lífaldri. Bann við mismunun á grundvelli aldurs tekur gildi 1. júlí 2019 og er því líklegt að ákvæðum kjarasamnings um lengra orlof vegna hærri lífaldurs verði breytt í þeim viðræðum sem standa yfir núna. Orlof reiknast á öll laun, þannig ef viðkomandi starfsmaður vinnur yfirvinnu sem er misjöfn eftir mánuðum skal hann fá orlofslaun reiknuð ofan á þá yfirvinnu, oftast á bilinu 10,17 prósent til 13,04 prósent.
Í dag 1. maí er baráttudagur launafólks.
Yfirskrift dagsins að þessu sinni er: Jöfnum kjörin – Samfélag fyrir alla!
Stjórn Samflots bæjarstarfsmannafélaga óskar félagsmönum til hamingju með daginn og minnir á nauðsyn samstöðu og þátttöku í starfi stéttarfélaga, án hennar verður baráttan fyrir betri kjörum þyngri og erfiðara að ná mannsæmandi launum fyrir alla félagsmenn.
Við fögnum alþjóðlegum baráttudegi þann 1. maí. Það er löng hefð fyrir því að koma saman og fara í kröfugöngu og á fund þar sem farið er yfir helstu áherslumál launafólks. Í því felst hvatning til okkar allra til að sýna samstöðu í verki og sækja fram.
Stjórn Samflots bæjarstarfsmannafélaga hvetur félagsmenn sína til að nota daginn til að íhuga stöðu launafólks og minnast þeirra fórna sem þurft hefur að færa til að ná fram sanngjörnum réttindum.
Gleiðlega hátíð.
Guðbjörn Arngrímsson
formaður Samflots
Nú er frágangur vegna sumarumsóknartímabilsins liðinn og í dag, 24. apríl opnaðist fyrir „fyrstur kemur, fyrstur fær“.
Það þýðir að félagsmenn geta farið inn á orlofsvefinn og pantað sér hús, íbúð eða kort og hótelmiða og gengið frá pöntun og borgað strax.
Opnað verður fyrir helgarleigu í íbúðum á Reykjavíkursvæðinu en vikuleiga verður áfram í orlofshúsum.
Rétt er að benda á að ennþá eru laus tímabil í okkar flotta orlofshúsi á Torrevieja á Spáni og geta félagsmenn pantað beint á netinu í gegnum orlofsvefinn.
Orlofsnefnd Samflots óskar félagsmönnum aðlildafélaga Samflots gleðilegs sumars og vonar að það verði okkur öllum gott og afslappað.
f.h. orlofsnefndar
Guðbjörn Arngrímsson
formaður.
Laun starfsmanna sveitarfélaga, þar með taldir starfsmenn Fjallabyggðar, sem eru í einhverjum af aðildarfélögum BSRB munu hækka um 1,5 prósent frá 1. janúar 2019 eftir að samkomulag um framhald launaþróunartryggingar opinberra starfsmanna var undirritað í gær.
Laun starfsmanna ríkisins sem eru í einum af aðildarfélögum BSRB munu ekki hækka að þessu sinni þar sem laun þeirra hækkuðu meira en sem nemur hækkunum á almenna vinnumarkaðinum á síðasta ári.