Hleð......

Úrslit í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga

 

Ágæti félagsmaður

Nú er lokið atkvæðagreiðslu um kjarasamninga þá sem undirritaðir voru 9. mars s.l. við ríki og sveitarfélög. Atkvæðagreiðslan var sameiginleg með öllum 7 aðildarfélögum Samflots.

Atkvæðagreiðslan um samninginn við sveitarfélögin fór þannig:

Á kjörskrá voru:                    931
Atkvæði greiddu                    574 eða 61.7%
Já sögðu                               490 eða 85.4% af greiddum atkvæðum
Nei sögðu                               56 eða   9.8% af greiddum atkvæðum
Auðir seðlar                            28 eða   4.9% af greiddum atkvæðum

Og atkvæðagreiðslan um samninginn við ríkið fór þannig:

Á kjörskrá voru:                      126
Atkvæði greiddu                       77 eða  61.1%
Já sögðu                                  67 eða  87.0% af greiddum atkvæðum
Nei sögðu                                  5 eða   6.5% af greiddum atkvæðum
Auðir seðlar                               5 eða   6.5% af greiddum atkvæðum

Samningarnir eru því báðir samþykktir.

Þetta tilkynnist hér með.

Guðbjörn Arngrímsson 

Rafræn kynning og kosning um nýgerða kjarasamninga.

 

Ágæti félagsmaður í aðildarfélagi Samflots

Fyrirhugaðir kynningarfundir vegna nýgerðra kjarasamninga við Ríki og Sveit verða ekki haldnir vegna óvenjulegra aðstæðna í samfélaginu. Við teljum enga ástæðu til að storka fyrirmælum stjórnenda og hvað þá örlögum okkar félagsmanna og fjölskyldum þeirra.

Í rafrænum heimi sem flest okkar búa við, getum við komið því þannig fyrir að ítarlegt kynningarefni verður sett inná þessa heimasíðu og á BSRB síðunni, bsrb.is, verður líka efni sem hægt er að skoða, sjá neðar á síðunni.

Rafræn kosning fer svo af stað kl. 12.00 miðvikudag 18. mars og henni lýkur kl. 16.00 22. mars.

Hver og einn félagsmaður fær sendan tölvupóst eða SMS með atkvæðaseðli sem viðkomandi kýs með. Ef það er einhver misbrestur á að þið fáið atkvæðaseðil, hafið þá endilega samband við formann s: 899-6213 og við reynum að greiða úr því.

Það er von okkar að þetta óvenjulega fyrirkomulag við kosningu nýs kjarasamnings geti gengið upp og valdi ykkur ekki miklum óþægindum og eða óvissu. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að létta undir ykkar aðgengi og aðstoða á alla hugsanlegan hátt.

Hér fyrir neðan eru tenglar inn á kynningarefni sem við biðjum ykkur að kynna ykkur vel.

Kynnigarefni frá BSRB

Kynningarefni fyrir önnur atriði í kjarasamningi við sveitarfélögin

Kynningarefni fyrir önnur atriði í kjarasamningi við Ríkið

Kjarasamningur við Ríkið

Kjarasamningur við Sveitarfélögin

Við reynum svo að svara öllum spurningum sem upp koma hratt og vel á FB og svo má líka senda okkur tölvupóst í; samflot@samflot.is

 

F.h. stjórnar Samflots

Guðbjörn Arngrímsson

Yfirgnæfandi meirihluti samþykkti verkfallsboðun

 

Yfirgnæfandi meirihluti félaga í öllum aðildarfélögum BSRB sem lokið hafa atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun samþykkti boðun verkfalls. Verkfallsaðgerðir munu hefjast mánudaginn 9. mars, takist samningar ekki fyrir þann tíma.

Um 87,6 prósent þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunum samþykktu boðun verkfalls hjá sínu félagi. Um 8,1 prósent voru andvíg boðun verkfalls og 4,3 prósent skiluðu auðu í atkvæðagreiðslunum. Það er því ljóst að um 15.400 félagsmenn í aðildarfélögum BSRB eru á leið í verkfallsaðgerðir eftir rúmar tvær vikur.

Alls stóðu 17 aðildarfélög BSRB fyrir atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sem stóð frá 17. til 19. febrúar. Félagsmenn í 15 félögum samþykktu að boða til aðgerða. Hjá einu félagi, Starfsmannafélagi Garðabæjar, náðist ekki næg þátttaka í atkvæðagreiðslunni. Um 41 prósent greiddu atkvæði en 50 prósent félagsmanna þurfa að greiða atkvæði svo verkfallsboðun sé lögleg. Atkvæðagreiðsla hjá einu félagi, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, er enn í gangi og verða niðurstöður kynntar þegar þær liggja fyrir.

Þátttakan í atkvæðagreiðslum aðildarfélaganna var almennt afar góð. Að meðaltali tóku um 65 prósent félagsmanna í hverju félagi þátt í atkvæðagreiðslunum en þátttakan fór allt upp í tæplega 98 prósent í einstökum félögum.

Verkföllin munu hafa mikil áhrif á almannaþjónustuna enda munu þau ná til starfsfólks í heilbrigðisþjónustunni, þar með talið á Landspítalanum, og í skólum, leikskólum og á frístundaheimilum. Þá mun starfsfólk í sundlaugum og íþróttahúsum auk starfsmanna sem sinna þjónustu við aldraða og fólk með fötlun leggja niður störf, svo einhver dæmi séu nefnd.

Tvíþættar verkfallsaðgerðir

Boðuðum verkfallsaðgerðum má skipta í tvo hluta. Annars vegar mun þorri félagsmanna hjá ríkinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg leggja niður störf á ákveðnum dögum. Þessi hópur mun leggja niður störf dagana 9. og 10. mars, 17. og 18. mars, 24. og 26. mars og 31. mars og 1. apríl.

Í hinum hlutanum eru smærri hópar starfsmanna sem verða í ótímabundnu verkfalli frá og með 9. mars. Í þeim hópi eru meðal annars starfsmenn í grunnskólum og leiðbeinendur á frístundaheimilum á nær öllu höfuðborgarsvæðinu auk Akraness. Að óbreyttu má því reikna með að frístundaheimilin verði lokuð frá upphafi verkfalls þar til samningar takast. Í þeim hópi eru einnig starfsmenn hjá Skattinum og sýslumannsembættum um allt land.

Þessar aðgerðir munu halda áfram fram í dymbilviku, en hafi samningar ekki tekist fyrir 15. apríl munu félagsmenn aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum fara í ótímabundið allsherjarverkfall þar til samningar hafa tekist.

Félagsmenn í eftirtöldum félögum hafa samþykkt boðun verkfalls:
  • Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi
  • Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum
  • FOSS, stéttarfélag í almannaþjónustu
  • Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu
  • Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu
  • Sjúkraliðafélag Íslands
  • Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu
  • Starfsmannafélag Fjallabyggðar
  • Starfsmannafélag Fjarðabyggðar
  • Starfsmannafélag Hafnarfjarðar
  • Starfsmannafélag Húsavíkur
  • Starfsmannafélag Kópavogs
  • Starfsmannafélag Mosfellsbæjar
  • Starfsmannafélag Suðurnesja
  • Starfsmannafélag Vestmannaeyja

Þrjú félög til viðbótar; Landssamband lögreglumanna, Tollvarðafélag Íslands og Félag starfsmanna stjórnarráðsins, hafa lýst yfir stuðningi við aðgerðirnar, en félagsmenn þeirra hafa ekki verkfallsrétt og munu félögin því ekki boða til sambærilegra aðgerða. Þá styðja fangaverðir, sem eru í Sameyki en hafa ekki verkfallsrétt, aðgerðirnar þó þeir verði að standa utan við þær. Þá er atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun ekki lokið hjá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Félögin hafa verið kjarasamningslaus frá 1. apríl 2019, eða í á ellefta mánuð. Kjarasamningsviðræður munu halda áfram samhliða undirbúningi verkfallsaðgerða.

Hægt er að skoða niðurstöðurnar brotnar niður á einstök félög hér.

 

Aðildarfélög undirbúa atkvæðagreiðslu um verkföll

 

Aðildarfélög BSRB sem semja við ríki, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg hafa samþykkt að undirbúa atkvæðagreiðslur um verkfallsboðun. Atkvæðagreiðslurnar fari fram hjá hverju félagi fyrir sig 17. til 19. febrúar og áformaðar aðgerðir hefjist í mars.

Félagsmenn aðildarfélaga BSRB sinna fjölbreyttum störfum til að mynda á Landspítalanum og í annarri heilbrigðisþjónustu, í velferðarþjónustu, skólum, leikskólum og frístundaheimilum, í sundlaugum, íþróttahúsum og þjónustu við aldraðra og fólk með fötlun. Um 19 þúsund starfsmenn ríkis og sveitarfélaga starfa undir kjarasamningum aðildarfélaga BSRB.

Sjá meira

 

Guðbjörn Arngrímsson

Formaður Samflots

 

 

Orlofshús apríl - maí.

 

Nú er búið að opna fyrir umsóknir í orlofshús og íbúðir til 29. maí en þá byrjar sumartímabilið.

Við erum ennþá með kerfið "fyrstur kemur fyrstur fær" og verður það þar til sumartímabilið hefst.

Við minnum á að orlofsblaðið sem kemur út í byrjun mars, verður sent rafrænt til félagamanna en ekki prentað, þetta er gert í hagræðingaskyni en ekki síður í anda umhverfisstefnu félaganna og heimsins alls.

Því er nauðsynlegt að allir félagmenn sendi netfangið sitt til síns félag, á skrifstofu eða til formanna félaganna.

Ef einhver óskar eindregið eftir því að fá blaðið prentað til sín skal hafa hafa samband við skrifstofur félaganna.

 

Orlofsnefndin

Kjarasamninga strax – Baráttufundur opinberra starfsmanna

 

Opinberir starfsmenn hafa fengið sig fullsadda af skeytingarleysi viðsemjenda nú þegar tíu mánuðir eru liðnir frá því kjarasamningar losnuðu. BSRB, Bandalag háskólamanna og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga boða til baráttufundar fyrir félagsmenn sína þar sem þess verður krafist að opinberir launagreiðendur gangi þegar í stað til kjarasamninga við starfsfólk sitt.

Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 30. janúar milli klukkan 17 og 18 í aðalsal Háskólabíós. Streymt verður frá fundinum beint á fundi aðildarfélaga BSRB og BHM í Hofi á Akureyri og víðar um land.

Kjarasamningar þorra opinberra starfsmanna hafa verið lausir frá 1. apríl 2019 og hafa viðræður við ríki og sveitarfélög gengið afar hægt. Þolinmæði félagsmanna og samninganefnda er löngu þrotin og kominn tími á að efla samstöðuna og undirbúa aðgerðir.

Á baráttufundinum í Háskólabíói munu eftirtalin flytja stutt ávörp:

  • Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
  • Laufey Elísabet Gissurardóttir, formaður Þroskaþjálfafélags Íslands, fyrir hönd BHM.
  • Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
  • Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
  • Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis.

Milli ávarpa munu Jónas Sig og ritvélar framtíðarinnar og Reykjavíkurdætur taka nokkur lög.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta á fundi í þeirra nágrenni eða fylgjast með fundinum á facebook síðum félaganna.

Guðbjörn Arngrímsson

Formaður Samflots

Jólakveðja 2019

Kæri félagsmaður aðildarfélaga Samflots

Fyrir hönd Samflots bæjarstarfsmannafélaga sendi ég þér og fjölskyldu þinni sem og landsmönnum öllum, bestu jóla og nýjárskveðjur með von um að árið 2020 verði okkur öllum gjöfult og gott.

 

Með jólakveðju

f.h. Samflots

Guðbjörn Arngrímsson

formaður.

Endurskoða þarf barnabótakerfið frá grunni.

Endurskoða þarf íslenska barnabótakerfið frá grunni enda nýtist það nær eingöngu sem stuðningur við allra tekjulægstu hópana í samfélaginu að mati BSRB. Þá þarf að draga verulega úr tekjutengingum í kerfinu með það að markmiði að auka ráðstöfunartekjur heimila með börn á framfæri.

Í skýrslu sem Kolbeinn Stefánsson, doktor í félagsfræði, vann fyrir BSRB kemur fram að ólíkt barnabótakerfum hinna Norðurlandanna gagnist íslenska barnabótakerfið nær eingöngu foreldrum með afar lágar tekjur. Fyrir vísitölufjölskyldu með tvær fyrirvinnur nálægt meðaltekjum eru bæturnar litlar eða engar. Fjölskyldur í þeirri stöðu á hinum Norðurlöndunum fá umtalsverðar barnabætur.

„Það þarf að ráðast í heildarendurskoðun á barnabótakerfinu þar sem sett verða skýr markmið og kerfið útfært þannig að það nái þeim markmiðum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. „Eins og við sjáum svart á hvítu í skýrslunni kemur íslenska kerfið ágætlega út þegar eingöngu er litið til tekjulágra foreldra ungra barna, en stendur barnabótakerfum hinna Norðurlandanna langt að baki þegar kemur að öllum öðrum foreldrum.“

Sjá nánar hér

 

 

Persónuuppbót/desemberuppbót 2019

Þrátt fyrir að ekki hafi enn náðst samningar verður greidd út desemberuppbót og verður hún sú sama og fyrir árið 2018. Þegar samningar hafa náðst verður upphæðin leiðrétt. Hér fyrir neðan eru upplýsingar um forsendur fyrir uppbótunum eins og þær voru á síðasta ári og gilda þær fyrir árið í ár, 2019. 

Fyrir starfsmenn sveitarfélaga:  Á árinu 2018 kr.  113.000

Desemberuppbót er greidd 1. desember ár hvert Með fullu starfi er átt við 100% starf tímabilið 1. janúar til 30. nóvember sama ár. Hafi starfsmaður gegnt hlutastarfi eða starfað hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall og/eða starfstíma, þó þannig að hann hafi starfað samfellt a.m.k. frá 1. september það ár. Starfsmaður sem lætur af störfum á árinu, en hafði þá starfað samfellt í a.m.k. 6 mánuði, skal einnig fá greidda persónuuppbót miðað við starfstíma og starfshlutfall á árinu. Hlutfall skv. þessari málsgrein er reiknað sem hlutfall af fullri vinnu (100%) í 12 mánuði á almanaksárinu af síðast gildandi persónuuppbót.


Fyrir ríkisstarfsmenn:  Á árinu 2018 kr. 89.000

Starfsmaður sem er við störf í fyrstu viku nóvembermánaðar skal fá greidda persónuuppbót 1. desember ár hvert miðað við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Persónuuppbót er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamningsins. Á uppbótina reiknast ekki orlofsfé. Hafi starfsmaðurinn gegnt hlutastarfi eða unnið hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall á framangreindu tímabili. 

Á sama hátt skal einnig starfsmaður sem látið hefur af starfi en starfað hefur samfellt í a.m.k. 3 mánuði (13 vikur) á árinu, fá greidda uppbót í desember, miðað við starfstíma og starfshlutfall. Sama gildir þótt starfsmaður sé frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur eða í allt að 6 mánuði vegna fæðingarorlofs.

 

Hlutastörf lækka tekjur kvenna út ævina

 

Mun hærra hlutfall kvenna en karla á Íslandi vinnur hlutastörf, sem hefur mikil áhrif á tekjur þeirra allt fram á efri ár. Rannsóknir sýna að um þriðjungur kvenna vinnur hlutastörf en á bilinu sex til fjórtán prósent karla, en hlutfallið sveiflast meira milli tímabila hjá körlum.

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á ástæðu þess að konur og karlar vinna hlutastörf og þær hafa leitt ýmislegt í ljós. Í norrænni samanburðarrannsókn frá árinu 2014 kemur fram að algengasta ástæðan fyrir því að konur vinna hlutastörf er sú ábyrgð sem þær taka á fjölskyldunni. Um þriðjungur hlutastarfandi kvenna gefur þá ástæðu.

Þegar svör karla eru skoðuð kemur í ljós að enginn þeirra valdi sér hlutastarf vegna fjölskylduaðstæðna. Almennt virðast karlar fremur vinna hlutastörf vegna menntunar, eigin heilsu eða annarra ástæðna. Aðrar rannsóknir sem ná til fólks í hlutastörfum í öðrum Evrópulöndum sýna sömu niðurstöður, um þriðjungur kvenna vinnur hlutastarf vegna fjölskylduábyrgðar en einungis um sex prósent karla.

Þessi munur á atvinnuþátttöku kynjanna getur haft margvíslegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir konur út ævina. Lægri atvinnuþátttaka skilar sér ekki bara í lægri tekjum á vinnumarkaði, heldur einnig í lægri lífeyrisgreiðslum kvenna.

Stytting vinnuviku getur breytt miklu

BSRB hefur lengi talað fyrir því að jafna þurfi stöðu kynjanna á vinnumarkaði og inni á heimilum. Stytting vinnuvikunnar er einnig gríðarstórt jafnréttismál, en rannsóknir sýna að styttri vinnuvika geti stuðlað að því að konur leiti síður í hlutastörf og karlar taki aukna ábyrgð á umönnun barna og heimilisstörfunum.

Það er von BSRB að með styttingu vinnuvikunnar takist að breyta hefðbundnum hugmyndum um hlutverk kynjanna með því að stuðla að jafnari skiptingu ábyrgðar á launuðum sem ólaunuðum störfum. En ekki síst að stytting vinnuvikunnar leiði til þess að störf sem gjarnan eru kölluð kvennastörf verði metin af verðleikum í launasetningu og með betri vinnutíma.

Lestu meira um baráttu BSRB fyrir styttingu vinnuvikunnar hér.

 

 

Upp