Styttri vinnutími eða sveigjanlegri?
Þegar rætt er um styttingu vinnuvikunnar er hugmyndum um sveigjanlegan vinnutíma gjarnan stillt upp sem einhverskonar andsvari. Með því er litið fram hjá því að stytting vinnuvikunnar hefur það meðal annars að markmiði að búa til skýran ramma um sveigjanleika vinnutímans.
Eitt af meginmarkmiðunum með kröfunni um styttingu vinnuvikunnar er að minnka streitu og gera starfsfólki kleift að samþætta betur vinnu og einkalíf. Rannsóknir sýna fram á að eftir því sem fólki gengur betur að samþætta fjölskyldulífið og vinnuna því sáttara er það við líf sitt. Það hefur því bein jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu.