Skattatillögur ganga ekki nægilega langt
Formannaráð BSRB telur að tillögur stjórnvalda að breytingum á skattkerfinu, sem kynntar voru í gær, gangi ekki nægilega langt í átt að jöfnuði og réttlæti í samfélaginu. Þetta kemur fram í ályktun ráðsins sem samþykkt var í morgun.
Í ályktuninni er það ítrekað sú stefna bandalagsins að fjölga eigi skattþrepum, eins og ráðgert er samkvæmt tillögunum, en harmað hversu litlar lækkanirnar eru fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar og hversu seint þær eiga að koma til framkvæmda.
„Tillögur ríkisstjórnarinnar fela í sér að á næstu þremur árum verði skattbyrði einstaklinga lækkuð sem nemur alls 6.760 krónum mánaðarlega. Breytingarnar eiga að koma í þremur áföngum og á sá fyrsti ekki að koma til framkvæmda fyrr en í byrjun árs 2020 þegar skattbyrðin á að lækka um 2.253 krónur. Það veldur vonbrigðum hve lítil lækkunin er og enn meiri vonbrigðum hversu seint hún á að koma til framkvæmda,“ segir meðal annars í ályktun formannaráðsins.