ORLOFSUPPBÓT GREIDD ÞÓ SAMNINGAR SÉU LAUSIR.
Orlofsuppbót er hluti af öllum kjarasamningum aðildarfélaga BSRB og greiðist annað hvort 1. maí eða 1. júní. Orlofsuppbótin er föst krónutala, á hana bætist ekki orlof, og samið er um hana fyrir hvert og eitt ár þegar kjarasamningar eru gerðir. Hjá ríkinu og Reykjavíkurborg er uppbótin greidd 1. júní en hjá öðrum sveitarfélögum er hún greidd 1. maí.
Þar sem kjarasamningar eru lausir núna liggur ekki fyrir hver upphæð orlofsuppbótar fyrir árið 2019 verður. Það þýðir þó ekki að greiðsla orlofsuppbótar frestist þar til samið verður. Eðlilegt er að starfsmenn fái greidda orlofsuppbót síðasta árs á þeim tímapunkti sem kjarasamningur greinir og fái svo leiðréttingu ef samið verður um hærri orlofsuppbót í komandi kjarasamningum. Á árinu 2018 var orlofsuppbótin 48.000 krónur í flestum samningum aðildarfélaga BSRB.
Um orlofsuppbót gilda almennt þær reglur að einstaklingar sem hafa verið í fullu starfi allt orlofsárið, frá 1. maí til 30. apríl, fá fulla uppbót. Það sama gildir um einstaklinga sem hafa verið í fæðingarorlofi eða launalaust frá störfum vegna veikinda í allt að sex mánuði. Starfsmenn í hlutastarfi fá greidda uppbót eftir starfshlutfalli og þeir starfsmenn sem hafa unnið hluta úr ári sömuleiðis, ef þeir hafa unnið að minnsta kosti 3 mánuði á orlofsárinu.