Hleð......

Kjarasamninga strax – Baráttufundur opinberra starfsmanna

 

Opinberir starfsmenn hafa fengið sig fullsadda af skeytingarleysi viðsemjenda nú þegar tíu mánuðir eru liðnir frá því kjarasamningar losnuðu. BSRB, Bandalag háskólamanna og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga boða til baráttufundar fyrir félagsmenn sína þar sem þess verður krafist að opinberir launagreiðendur gangi þegar í stað til kjarasamninga við starfsfólk sitt.

Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 30. janúar milli klukkan 17 og 18 í aðalsal Háskólabíós. Streymt verður frá fundinum beint á fundi aðildarfélaga BSRB og BHM í Hofi á Akureyri og víðar um land.

Kjarasamningar þorra opinberra starfsmanna hafa verið lausir frá 1. apríl 2019 og hafa viðræður við ríki og sveitarfélög gengið afar hægt. Þolinmæði félagsmanna og samninganefnda er löngu þrotin og kominn tími á að efla samstöðuna og undirbúa aðgerðir.

Á baráttufundinum í Háskólabíói munu eftirtalin flytja stutt ávörp:

  • Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
  • Laufey Elísabet Gissurardóttir, formaður Þroskaþjálfafélags Íslands, fyrir hönd BHM.
  • Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
  • Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
  • Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis.

Milli ávarpa munu Jónas Sig og ritvélar framtíðarinnar og Reykjavíkurdætur taka nokkur lög.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta á fundi í þeirra nágrenni eða fylgjast með fundinum á facebook síðum félaganna.

Guðbjörn Arngrímsson

Formaður Samflots

Upp