Hleð......

Kjaradeilu við ríkið vísað til ríkissáttasemjara

 

Samningseiningar BSRB funduðu í dag í kjölfar þess að það slitnaði upp úr viðræðum við ríkið í gær. „Fulltrúar aðildarfélaga BSRB eru einhuga um að næsta skref er að vísa deilunni gagnvart ríkinu til ríkissáttasemjara,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Fundurinn í dag var gagnlegur og mikil samstaða ríkti þar. „Viðræðurnar við ríkið hafa ekkert þokast undanfarið og því lítið eftir að gera en að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. Á fundinum kom skýrt fram að fyrirliggjandi tilboð ríkisins er með öllu óásættanlegt. Það er ekki neinn að fara að ganga að þessu tilboði,“ segir Sonja.

Helst er deilt um kröfu BSRB um styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir án kjaraskerðingar, með meiri styttingu fyrir vaktavinnufólk. Í tilboði ríkisins var miðað áfram við 40 stunda vinnuviku en opnað á möguleika á að samið yrði um að stytta vinnuvikuna á einstökum vinnustöðum með því að sleppa kaffitímum og gefa eftir fleiri kjarasamningsbundin réttindi. Þá á enn eftir að taka til umræðu jöfnun launa milli markaða, launaþróunartryggingu og launaliðinn.

„Tilboð ríkisins felur í raun í sér að opinberir starfsmenn eiga að borga fyrir styttinguna og gott betur. Ætlunin er að taka meira af kjarasamningsbundnum réttindum en okkar félagsmenn myndu fá í staðinn og það sjá allir að það gengur einfaldlega ekki upp,“ segir Sonja.

Upp