Endurskoða þarf barnabótakerfið frá grunni.
Endurskoða þarf íslenska barnabótakerfið frá grunni enda nýtist það nær eingöngu sem stuðningur við allra tekjulægstu hópana í samfélaginu að mati BSRB. Þá þarf að draga verulega úr tekjutengingum í kerfinu með það að markmiði að auka ráðstöfunartekjur heimila með börn á framfæri.
Í skýrslu sem Kolbeinn Stefánsson, doktor í félagsfræði, vann fyrir BSRB kemur fram að ólíkt barnabótakerfum hinna Norðurlandanna gagnist íslenska barnabótakerfið nær eingöngu foreldrum með afar lágar tekjur. Fyrir vísitölufjölskyldu með tvær fyrirvinnur nálægt meðaltekjum eru bæturnar litlar eða engar. Fjölskyldur í þeirri stöðu á hinum Norðurlöndunum fá umtalsverðar barnabætur.
„Það þarf að ráðast í heildarendurskoðun á barnabótakerfinu þar sem sett verða skýr markmið og kerfið útfært þannig að það nái þeim markmiðum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. „Eins og við sjáum svart á hvítu í skýrslunni kemur íslenska kerfið ágætlega út þegar eingöngu er litið til tekjulágra foreldra ungra barna, en stendur barnabótakerfum hinna Norðurlandanna langt að baki þegar kemur að öllum öðrum foreldrum.“